Valgerður Bláklukka Fjölnisdóttir,

Þjóðfræðinemi. 3. sæti.

Ég er uppalin í Hafnarfirði og hef haft þar búsetu að mestu leyti fyrir utan þau fimm ár sem ég bjó í Fljótshlíð sem barn og unglingur. Í dag bý ég í miðbæ Hafnarfjarðar ásamt verðandi eiginkonu minni og syni okkar. Ræturnar liggja þó víðar um kjördæmið þar sem föður fjölskyldan er úr Kópavogi og tengdafjölskyldan búsett að stórum hluta í Mosfellsbæ.


Ég er nemi í Þjóðfræði við Háskóla Íslands og hef síðastliðin ár starfað meðfram námi á Landspítala og hjúkrunarheimilum við umönnun. Í gegnum þau störf hef ég kynnst hverju er ábótavant þegar kemur að heilbrigðiskerfinu okkar og því hvernig megi hlúa betur að lífsgæðum aldraðra og sjúklinga.
Frá 16 ára aldri hef ég tekið virkan þátt í stjórnmálum bæði á sveitarstjórnarstigi sem fulltrúi í ráðum og nefndum í Hafnarfirði og á landsvísu m.a sem varaformaður UVG starfsárið 2017-2018.


Árin 2015-17 var ég formaður ungliðahreyfingar Rauða krossins á Íslandi en í því starfi öðlaðist ég mikla innsýn í mannúðarverkefni bæði hér á landi sem og erlendis m.a í málefnum flóttafólks.
Málefni og réttindi fatlaðs fólks á öllum aldri eru mitt hjartans mál og tel ég mikilvægt að lögfesta Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks ekki seinna en í gær. Með löggildingu yrði stigið mikilvægt skref til að tryggja að fatlað fólk á Íslandi njóti mannréttinda til jafns við aðra sem í landinu búa sem ekki er staðreyndin í dag. Í fjölmennasta kjördæmi landsins er mikilvægt að tefla fram frambjóðendum sem höfða til flestra hópa samfélagsins. Í ljósi reynslu minnar og áhuga á fjölbreyttum málefnum vil ég leggja mitt af mörkum með því að bjóða mig fram til 3. sætis á lista kjördæmisins í komandi kosningum.


Tölvupóstfang: valgerdur@vinstri.is
Instagram: blaklukka
Twitter: @blaklukka

Aðrir frambjóðendur