Ólafur Þór Gunnarsson

Læknir og alþingismaður. 1. sæti.

Kæru vinir.  Ég hef allan minn pólitíska feril starfað í Kraganum og þekki kjördæmið vel.  Ég hef setið á þingi undanfarið kjörtímabil og þar áður í bæjarstjórn Kópavogs og talað fyrir sjónarmiðum réttlætis í velferðarmálum, fyrir málstað eldra fólks, umhverfis og náttúruvernd , jafnréttis og kvenfrelsis.  Ég hef beitt mér fyrir réttlátara skattkerfi og bent á leiðir til að nota skattkerfið í þágu umhverfisverndar.

Á kjörtímabilinu hef ég setið í velferðarnefnd og efnahags og viðskiptanefnd. Ég hef lagt fram fjölda mála sem snerta heilbrigðismál, málefni eldra fólks, umhverfismál, málefni sveitarfélaga og fleira.  Ég hef einnig lagt fram mál um kolefnisspor matvæla og kolefnisspor ferðaþjónustunnar. Þá hef ég verið framsögumaður í mörgum mikilvægum málum á kjörtímabilinu, t.a.m. lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði, sóttvarnarlög, lyfjalög, lögum um heilbrigðisþjónustu ofl.

Bakgrunnur minn í heilbrigðisþjónustu og sveitarstjórnarmálum hefur sýnt mér hvaða mál brenna helst á fólki frá degi til dags, og  hvers vegna er mikilvægt er að berjast fyrir betra samfélagi. 

Við þurfum að halda áfram að byggja upp heilbrigðiskerfið og  efla þjónustu við eldra fólk á forsendum þess sjálfs.     

Atvinnumálin verða í brennidepli á næstu misserum og miklu skiptir að draga úr atvinnuleysi og tryggja afkomu atvinnuleitenda. Þá munu loftslagsmál og umhverfismál áfram verða grundvallarmál fyrir Vinstri Græn. Borgarlínan mun skipta Kragann miklu máli og umhverfisvænar samgöngur munu áfram verða í brennidepli.

Við viljum samfélag fyrir alla. Það skiptir máli hver stjórna og það skiptir máli að stjórn undir forystu okkar hefur leitt þetta kjörtímabil.  

Ég óska eftir ykkar  stuðningi til að leiða lista VG í Kraganum í komandi kosningum.

Aðrir frambjóðendur