Kolbrún Halldórsdóttir

Leikstjóri og fyrrverandi alþingismaður og ráðherra. 2. sæti.

Ég heiti Kolbrún Halldórsdóttir og gef kost á mér í annað sætið í forvali VG í Suðvesturkjördæmi, af því mig langar til að nýta starfskrafta mína og reynslu í þágu hreyfingarinnar á ný.

Ég á að baki 10 ára þingreynslu fyrir VG (1999 – 2009), starfaði þar í umhverfisnefnd, menntamálanefnd og allsherjarnefnd, með áherslu á umhverfismál, kvenfrelsi og ýmis mál tengd kynjajafnrétti ásamt málefnum hinsegin fólks. Ég sinnti friðarmálum, orku- og auðlindamálum, Norðurlandamálum og málefnum lista og menningar.

Síðustu 12 ár hef ég starfað í umhverfi listanna, t.d. sem forseti Bandalags íslenskra listamanna og fyrir Leikminjasafn Íslands. Síðustu 4 ár hef ég setið stjórn Félags leikstjóra á Íslandi, er þar formaður um þessar mundir. Ég hef sinnt kjaramálum í vaxandi mæli, á sæti í formannaráði BHM og hef leitt samstarf fagfélaga sviðslistafólks undir hatti Sviðslistasambands Íslands. Ég hef setið í ýmsum stjórnum og ráðum á menningar- og listasviðinu, er formaður stjórnar Barnamenningarsjóðs Íslands, sit í Þjóðleikhúsráði og er formaður stjórnar Norrænu menningarstofnunarinnar í Róm. Að auki hef ég sinnt fjölbreyttum skapandi verkefnum á vettvangi lista og menningar síðustu ár, m.a. fyrir forsætisráðuneytið.

Erindi mitt inn á hið pólitíska svið nú er hið sama og áður, þ.e. löngunin til að leggja mitt af mörkum fyrir betri og bjartari framtíð í öllum skilningi, með áherslu á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og framtíð móður Jarðar. Ég sé fyrir mér skilvirkari opinbera stjórnsýslu, fjölbreyttara atvinnulíf, markvissari nýsköpun, jafnari skiptingu gæðanna og ég er sannfærð um mikilvægi þess að nálgast mál þverfaglega, með víðsýni og sköpunargáfuna að leiðarljósi.

Aðrir frambjóðendur