Guðmundur Ingi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson

Umhverfis- og auðlindaráðherra og umhverfisfræðingur

Býð mig fram í 1. sæti.

Á næsta kjörtímabili þurfum við að grípa til enn róttækari aðgerða í loftslagsmálum og styðja samhliða við ný græn störf með hringrásarhagkerfinu. Við þurfum að beita skattkerfinu enn frekar í þágu aukins jöfnuðar í samfélaginu, taka á launamun kynjanna og koma Íslandi í fyrsta sæti hvað varðar réttindi hinsegin fólks. Við þurfum að efla forvarnir í heilbrigðiskerfinu, tryggja öfluga menntun fyrir börn og fullorðna og auka styrki í stað lána í menntakerfinu.

Ég gekk til liðs við Vinstri græn þegar hreyfingin var stofnuð árið 1999, en tók fyrst þátt í pólitík í grunnskóla og menntaskóla, meðal annars sem formaður í nemendafélögum. Það var ekki flokkapólitík, en snerist um að hafa áhrif á skólasamfélagið og efla þátttöku nemenda í fjölbreyttu félagsstarfi.

Ég hef starfað við rannsóknir og kennslu, meðal annars við Háskóla Íslands, og ég var framkvæmdastjóri Landverndar í sex ár. Síðustu þrjú ár hef ég verið umhverfis- og auðlindaráðherra og varaformaður Vinstri grænna síðan haustið 2019.

Sem ráðherra hef ég komið fjölda stefnumála hreyfingarinnar okkar í umhverfis- og náttúruverndarmálum til framkvæmdar. Þar ber hæst stórauknar aðgerðir í loftslagsmálum, undirbúningur Hálendisþjóðgarðs, aðgerðir gegn plastmengun og matarsóun, innleiðing hringrásarhagkerfis, friðlýsing fjölda svæða um allt land og aukinn stuðningur hins opinbera við félagasamtök.

Stjórnmál eiga að móta lausnir í þágu samfélagsins alls. Þau mótast af hugmyndafræði, tíðaranda, reynslu og, ekki síst, samvinnu og samtali. Á næstu mánuðum þarf að fjölga störfum. Þar mun ferðaþjónustan skipta miklu máli, en aukin nýsköpun er nauðsynleg til að auka fjölbreytileika starfa til að styrkja stoðir hagkerfisins til lengri tíma litið.

Framtíðarstefið á að vera félagslegt réttlæti og sjálfbær þróun.

facebook.com/UmhverfisMummi

instagram.com/mummigudbrands

Aðrir frambjóðendur