Einar Bergmundur Þorgerðar- og Bóasarson

Hugbúnaðarsérfræðingur. 3. – 5. sæti.

Kæru félagar, ég gef kost á mér til setu í 3. – 5. sæti á framboðslista VG í Suðvesturkjördæmi. Reynsla mín og menntun spannar breitt svið, kvikmyndagerð, leikhús, störf á RÚV, útgáfu, hönnun og forritun. Sem slikur hef ég átt erindi á marga staði í samfélaginu og kynnst einstaklingum og starfsemi sem hefur byggt upp þekkingu og skilning á fjölmörgum sviðum atvinnu- og samfélagsmála. Þessa þekkingu hef ég notað í starfi mínu innan VG og hyggst gera það áfram um ókomna tíð. Á vettvangi VG hef ég starfað bæði innan svæðisfélaga og ekki síst á landsvísu sem fulltrúi í Flokksráði og í stjórn hreyfingarinnar.

Umhverfismál hafa verið mér mjög hugleikin ásamt jafnréttismálum og réttlátri tekjuskiptingu. Undanfarin misseri hef ég lagt mig eftir að fræðast um spillingu og máefni sem snerta hana. Þar er um auðugan garð að gresja í íslensku samfélagi þar sem frændhygli, þaulseta og ekki síst skortur á siðferðislegum viðmiðum er landlægt vandamál. 

Það er af nógu að taka í baráttunni, við eigum gott fólk með gríðarlega þekkingu og reynslu en ekki síst með hjartað á réttum stað. 

Vonandi tekst okkur að koma sem flestum að í komandi kosningum til Alþingis. 

Aðrir frambjóðendur